Í greininni er kynnt rannsókn á reynslu uppkominna skilnaðarbarna af jafnri búsetu hjá foreldrum eftir skilnað. Hún er framhald fyrri rannsókna höfunda um forsjá, búsetu, foreldrasamstarf og kynslóðasamskipti foreldra og ömmu/afa í 16 fjölskyldum. Rannsóknin er tvískipt: Megindlegur hluti um umfang og sýn 18–59 ára einstaklinga á landsvísu með reynslu af skilnaði foreldra og jafnri búsetu hjá þeim eftir skilnaðinn, og eigindlegur hluti með einstaklingsviðtölum við 16 skilnaðarbörn um uppvaxtarreynslu þeirra af jafnri búsetu.

Niðurstöður benda til almennt jákvæðrar reynslu af jafnri búsetu. Jafnframt komu fram skýr gagnrýnin sjónarmið varðandi öryggiskennd barnanna. Það átti einkum við þegar foreldrar velja fyrirkomulagið út frá eigin hagsmunum og án tillits til viðurkenndra forsendna sem þurfa að vera fyrir hendi ef vel á að takast til fyrir börnin. Í lokin eru niðurstöður ræddar og dregnar af þeim ályktanir um þjónustuþörf og lagabreytingar.

Höfundar: Sigrún Júlíusdóttir, Sólveig Sigurðardóttir og Dögg Pálsdóttir

► Sjá grein

Um höfunda

Sigrún Júlíusdóttir (sigjul@hi.is) er prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og rekur meðferðarþjónustuna Tengsl. Hún lauk félagsráðgjafarprófi frá Háskólanum í Lundi 1970; meistarapróf í klínískri félagsráðgjöf frá Michigan-háskóla 1978; löggiltu meðferðarréttindanámi frá sálfræðideild Gautaborgarháskóla/Socialstyrelsen 1988; og doktorsprófi í fjölskyldufræðum frá Gautaborgarháskóla 1993. Meginrannsóknasvið hennar eru fjölskyldurannsóknir, skilnaðir og velferð barna.

Sólveig Sigurðardóttir (solvsig@gmail.com) lauk BA-prófi í félagsráðgjöf frá Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands 2008 og meistaraprófi í félagsráðgjöf til starfsréttinda frá sömu deild 2010. Sólveig starfar sem félagsráðgjafi við félagsþjónustu sveitarfélaga og barnavernd. Meginrannsóknasvið hennar eru skilnaður og fjölskylda.

Dögg Pálsdóttir (dogg@dp.is) er aðjunkt í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og kennir þar barnarétt, hjúskapar- og sambúðarrétt og heilbrigðislögfræði. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1980, framhaldsnámi í lögum við Stokkhólmsháskóla 1980– 1981 og meistaraprófi í lýðheilsufræðum (MPH) frá John Hopkins-háskóla í Baltimore 1986. Dögg hefur starfað sem lögfræðingur í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 1981–1995, hæstaréttarlögmaður með eigin lögmannsstofu 1996–2011 og lögfræðingur hjá Læknafélagi Íslands frá 2011. Meginrannsóknasvið hennar eru fjölskylduréttur og heilbrigðislögfræði.

Efnisorð: jöfn búseta; skilnaður; foreldrasamstarf; velferð barna; skilnaðarráðgjöf; fjölskyldulöggjöf