Mikill munur er á menntunarstigi þjóðarinnar eftir landshlutum. Árið 2011 höfðu þannig 38% íbúa höfuðborgarsvæðisins á aldrinum 25–64 ára lokið háskólaprófi en 21–23% í flestum öðrum landshlutum. Þessi munur skýrist að hluta af takmörkuðu framboði starfa sem krefjast háskólamenntunar en að hluta af skorti á háskólafólki til starfa. Í þessari rannsókn eru upptökusvæði og áhrif háskóla á búsetuþróun metin á grundvelli gagna um allar brautskráningar frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst, Háskólanum á Hólum og Háskólanum á Akureyri á tímabilinu 1991–2015.

Niðurstöður sýna að meirihluti háskólanema sem stunda nám í heimabyggð býr þar áfram eftir brautskráningu en yfirleitt snýr mikill minnihluti háskólanema heim frá háskólanámi utan heimabyggðar. Háskólanemar í fjarnámi eru hins vegar álíka líklegir til að búa áfram í heimabyggð og þeir sem stunda staðarnám við háskóla þar sem þeir eru búsettir. Fjallað er um niðurstöðurnar í samhengi við niðurstöður erlendra rannsókna og byggðaþróun á Íslandi.

Höfundar: Þóroddur Bjarnason, Ingi Rúnar Eðvarðsson, Ingólfur Arnarson, Skúli Skúlason og Kolbrún Ósk Baldursdóttir

Sjá grein

Um höfunda

Þóroddur Bjarnason (thorodd@unak.is) er prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Hann lauk doktorsprófi frá University of Notre Dame í Bandaríkjunum. Rannsóknir Þórodds á byggðaþróun á Íslandi og stöðu og framtíðaráformum ungs fólks hafa birst í ýmsum innlendum og erlendum fræðitímaritum.

Ingi Rúnar Eðvarðsson (ingire@hi.is) er prófessor og deildarforseti við Viðskiptafræðideild HÍ. Hann lauk doktorsnámi í félagsfræði við Lundarháskóla í Svíþjóð. Rannsóknarsvið hans eru þekkingarstjórnun, mannauðsstjórnun, svæðisbundnir háskólar, vinnumarkaðir, prentiðnaður, byggðaþróun og útvistun. Ingi Rúnar hefur birt rannsóknir í innlendum og erlendum ritrýndum tímaritum og gefið út og ritstýrt bókum á sérsviði sínu.

Ingólfur Arnarson (ingolfur@bifrost.is) er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst. Hann lauk doktorsnámi í markaðsfræðum og aðgerðarrannsóknum frá Háskólanum í Tromsö. Rannsóknarsvið Ingólfs eru alþjóðaviðskipti og markaðssetning, rekstrarumhverfi fyrirtækja, nýsköpun og þróun atvinnulífs með tilliti til byggðaþróunar, aðgerðarrannsóknir og gildi tímans í hagferlum. Rannsóknir Ingólfs hafa birst í innlendum og erlendum fræðitímaritum.

Efnisorð: háskólar, svæðisbundin áhrif, fjarnám, menntunarstig, búferlaflutningar