""

Með þátttöku íslenska skólakerfisins í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum (TIMSS, PISA o.fl.) hefur náttúruvísindamenntun ótvírætt hlotið vaxandi athygli. Jafnframt hefur hugmyndinni um „náttúruvísindamenntun fyrir alla“ vaxið fiskur um hrygg. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf umsjónarkennara á yngsta stigi og miðstigi grunnskóla til kennslu náttúruvísinda og skoða aðstæður til náms og kennslu. Hugmyndir þriggja reyndra náttúrufræðikennara af yngsta stigi og miðstigi voru fyrst kannaðar með viðtölum, ásamt því að skoða niðurstöður hliðstæðra rannsókna.

Gögnin voru nýtt sem grunnur spurningakönnunar, sem lögð var fyrir úrtak umsjónarkennara yngsta stigs og miðstigs í 60 íslenskum grunnskólum. Svör bárust frá 131 kennara í 34 skólum. Samkvæmt niðurstöðum sjá umsjónarkennarar jafnan sjálfir um kennslu náttúruvísinda og þá oftast í almennum kennslustofum en síður í sérbúnum náttúrufræðistofum. Notkun kennslubóka virðist vera ríkjandi við öflun og miðlun þekkingar. Loks vekja niðurstöður spurningar um menntun og forsendur almennra kennara til að kenna náttúruvísindi án stuðnings.

Höfundar: Brynja Stefánsdóttir og Meyvant Þórólfsson

► Sjá grein

Um höfunda

Brynja Stefánsdóttir (brynja.stefansdottir@oldutunsskoli.is) lauk B.Ed.-prófi vorið 2014 og úrskrifaðist vorið 2016 með M.Ed í grunnskólakennslufræðum við Menntavísindavið Háskóla Íslands. Hún starfar sem náttúrufræðikennari á unglingastigi við Öldutúnsskóla en sérsvið hennar er náttúruvísindi. Hún hefur sérstakan áhuga á samhengi náms og kennslu í náttúruvísindum upp allan grunnskólann, einkum á yngsta stigi og miðstigi. Þessi grein er hluti af meistaraverkefni Brynju.

Meyvant Þórólfsson (meyvant@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk B.Ed.-prófi við Kennaraháskóla Íslands 1978 með líffræði og landafræði sem meginsvið og síðar eðlisfræði og stærðfræði. Hann lauk M.Ed.-prófi í uppeldis- og kennslufræðum árið 2002 með áherslu á stærðfræði- og náttúruvísindamenntun og doktorsprófi við Háskóla Íslands árið 2013 þar sem rannsóknarviðfangsefnið var námskrárþróun í náttúruvísindamenntun. Rannsóknir hans, kennsla og þróunarverkefni eru einkum á sviði raunvísindamenntunar, námskrárfræða, aðferðafræði menntarannsókna, námsmats og mats á skólastarfi.