Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig nám í tvískiptu kerfi löggiltra iðngreina fer fram á Íslandi, nánar tiltekið hvort samfella sé í skipulagi námsins og samhengi milli námsins í skóla og á vinnustað. Tekin voru viðtöl við sveina, kennara og meistara (átta í hverjum hóp) í fjórum iðngreinum.

Niðurstöður benda til þess að tvískipta kerfið sé að miklu leyti rekið eins og tvö samhliða námskerfi og ekki sé nægilega hugað að því að námið myndi samfellda heild. Samskipti eru óformleg og ábyrgð á samræmingu virðist hvergi vera skilgreind. Einnig sýndu niðurstöður að styrkleikar námsins í skólanum eru veikleikar námsins á vinnustað og öfugt, og því getur verið erfitt að tryggja gæði námsins í heild. Tvískipta kerfið í löggiltum iðngreinum ætti að geta boðið upp á góða heildstæða þjálfun en víða þarf að lagfæra fyrirkomulag til að tryggja gæði og samfellu náms. Rannsóknarverkefnið var styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu í gegnum verkefnið Nám er vinnandi vegur og af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.

Höfundur: Elsa Eiríksdóttir

► Sjá grein

Um höfundinn

Elsa Eiríksdóttir (elsae@hi.is) er lektor í kennslufræði verk- og starfsmenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999 og meistara- og doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum 2007 og 2011. Rannsóknaráhugi hennar beinist að námi og yfirfærslu, þróun kunnáttu og verk- og starfsmenntun.

Efnisorð: starfsmenntun; löggiltar iðngreinar; framhaldsskólar; vinnustaðanám; vinnustaðaþjálfun; tvískipt kerfi starfsmenntunar