Nemendum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið í íslenskum skólum. Það kallar á að skólar bregðist við námsþörfum þessa nemendahóps. Markmið þessarar greinar er að fjalla um reynslu kennara og foreldra af menntun nemenda af erlendum uppruna. Í eigindlegri rannsókn voru tekin viðtöl við þrjátíu og átta grunnskólakennara um reynslu þeirra af því að kenna nemendum af erlendum uppruna og helstu áskoranir sem því fylgja. Einnig voru tekin viðtöl við tíu erlenda foreldra um reynslu þeirra af íslenskum skólum.

Niðurstöður sýna að kennarar telja sig ekki vera nægilega vel studda til þess að skilja og takast á við námsþarfir nemendanna. Upplifun foreldra litast af hugmyndum þeirra um skólann sem hinn hefðbundna stað fyrir nám og íslenska skólakerfið ögrar þessum skilningi þeirra. Skortur er á samvinnu og samskiptum milli forelda og kennara. Í niðurlagi er lagt til að skólar stuðli að markvissari umræðu um þarfir nemenda og væntingar foreldra svo að efla megi og bæta menntun nemenda af erlendum uppruna.

Höfundar: Hermína Gunnþórsdóttir, Stéphanie Barillé og Markus Meckl

► Sjá grein

Um höfunda

Hermína Gunnþórsdóttir (hermina@unak.is) er dósent við Háskólann á Akureyri. Hún hefur BA-próf í íslensku og uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands, meistarapróf frá Kennaraháskóla Íslands (2003) og doktorspróf frá Háskóla Íslands (2014). Hún hefur starfað við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Helstu viðfangsefni hennar í kennslu og rannsóknum eru skóli og nám án aðgreiningar, fjölmenning og nám, félagslegt réttlæti ímenntun, fötlunarfræði, menntastefna og framkvæmd.

Stéphanie Barillé (stephanie@unak.is) er rannsakandi við Háskólann á Akureyri og doktorsnemi við Háskóla Íslands. Hún hefur BA-próf í félagsfræði og þjóðháttafræði frá París VIII háskóla og meistarapróf frá École des hautes études en sciences sociales í París (EHESS). Helstu viðfangsefni hennar í rannsóknum eru málefni innflytjenda og velferð á Norðurlöndum.

Markus Meckl (markus@unak.is) er með doktorspróf frá Tækniháskólanum í Berlín þar sem hann stundaði nám við Miðstöð rannsókna um and-semítisma. Síðan 2004 hefur hann starfað við Háskólann á Akureyri og gegnir þar starfi prófessors í fjölmiðlafræði. Í rannsóknum sínum seinustu árin hefur hann einkum einblínt á innflytjendamál á Norðurlandi og birt fjölda greina um efnið. Hann tekur virkan þátt í verkefnum sem snúa að innflytjenda- og aðlögunarmálum á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum og byggir þar m.a. á víðtækri reynslu sinni af rannsóknarsamstarfi með Háskóla Lettlands í Riga og Lettnesku menningarakademíunni.

Efnisorð: nemendur af erlendum uppruna; foreldrar af erlendum uppruna; fjölmenningarleg menntun; samskipti heimilis og skóla