Rúnar Sigþórsson og Gretar L. Marinósson (ritstjórar). (2017). Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð. Reykjavík: Háskólaútgáfan og Háskólinn á Akureyri. 473 bls.

Í bókinni er greint frá umfangsmikilli rannsókn á aðferðum og innleiðingu Byrjendalæsis. Höfundar, ellefu að tölu, ræða Byrjendalæsi sem aðferð en til þess mætti ekki síður vísa sem ákveðinnar nálgunar í námi og kennslu, sem sameinar margar aðferðir. Bókin er 473 blaðsíður að lengd og er skipt upp í 14 kafla. Fyrstu tveir fjalla um rannsóknina sjálfa og Byrjendalæsi sem aðferð. Þar er vel og ítarlega gerð grein fyrir fræðilegu baksviði Byrjendalæsis. Samkvæmt höfundum eru grunnstoðir þess sóttar til samvirkra aðferða „sem fást við mismunandi þætti læsis, svo sem lestur, lesskilning, talmál, hlustun og ritun sem samfléttaða heild“ (bls. 413). Í köflum 3–8 er fjallað um ýmsa þætti Byrjendalæsis, fræðilegt baksvið þeirra, hvernig þeir birtast í niðurstöðum rannsóknarinnar og þeir ræddir með hliðsjón af viðkomandi fræðikenningum. Kaflar 9–12 eru helgaðir innleiðingunni, starfsþróun og forystu. Kafli 13 fjallar um samstarf heimila og skóla um læsisnámið og í kafla 14 eru niðurstöður dregnar saman og horft til framtíðar. Ágrip af öllum köflum á íslensku og ensku eru í lok bókar auk gagnlegrar bendiskrár. Kaflarnir eru allir byggðir upp á svipaðan hátt og í góðu röklegu samhengi hver við annan.

Höfundur: Anna Kristín Sigurðardóttir

Sjá ritdóm

Um höfundinn

Anna Kristín Sigurðardóttir er dósent í menntaforystu og skólaþróun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er menntaður sérkennari og lauk doktorsgráðu frá Háskólanum í Exeter á sömu sviðum árið 2006. Rannsóknarsvið hennar beinast meðal annars að umbótastarfi í skólum, faglegu lærdómssamfélagi og tengslum námsumhverfis og kennsluhátta.