Vísbendingar eru um að vanlíðan kennara í starfi sé að aukast og eru helstar ástæður taldar vera aukið álag í starfi og skortur á stuðningi sem aftur tengist líkum á því að nýliðar hætti störfum. Rannsóknin er um upplifun og líðan grunnskólakennara í upphafi starfs. Tekin voru eigindleg viðtöl við níu kennara sem allir eru starfandi grunnskólakennarar. Leitast var við að varpa ljósi á reynslu kennaranna og líðan í sambandi við móttökuferli í upphafi starfs og samskipti og stuðning stjórnenda og samstarfsfólks. Niðurstöður sýna að nýliðum finnst kennarastarfið vera fjölbreytt en jafnframt krefjandi. Fram komu vísbendingar um að auka þyrfti vægi samskipta með
áherslu á jákvæð og uppbyggileg samskipti ásamt því að auka stuðning stjórnenda. Af niðurstöðunum má draga þá ályktun að styrkja þurfi móttökuferli nýrra kennara og gera ráðstafanir til að minnka álag og óöryggi í upphafi kennsluferils og að liður í því sé að styðja sjálfstraust nýliða og vellíðan í starfi. Niðurstöður rannsóknarinnar geta verið framlag til þekkingar á þáttum sem styrkja þarf til að auka starfsánægju og vellíðan kennara við upphaf starfs og þar með líkur á að þeir haldist í starfi.

Höfundar: Álfheiður Tryggvadóttir og Sigrún Gunnarsdóttir

Sjá grein hér

Efnisorð: grunnskólakennarar, upphaf starfs, vellíðan í starfi, stuðningur stjórnenda