Greinin fjallar um tengsl farsældar og menntunar á Íslandi með hliðsjón af hræringum á sviði alþjóðlegrar menntastefnu og nýjustu rannsóknum á sviðinu. Sérstaklega er fjallað um svokallaða farsældarkenningu í menntun sem hverfist meðal annars um heildstæða sýn á þroska, nám og hæfni nemenda og hvernig íslenska menntasamfélagið þarf að bregðast við á næstu misserum og árum. Greint er á milli ólíkra hugmynda um farsæld sem menntunarmarkmið (og gagnrýni á þær) er endurspegla ólíka fræðilega og faglega sýn. Höfundar sýna fram á ákveðna togstreitu í opinberri
umræðu og skort á skilningi á því hvernig nám fer fram. Alþjóðastofnanir, svo sem OECD og UNESCO, leggja sífellt meiri áherslu á heildstæða hæfni og farsæld sem markmið menntunar. Engu að síður snýst opinber umræða gjarnan um bóklegan námsárangur, svo sem PISA, sem mótar einatt ákvarðanir og viðbrögð stjórnvalda. Höfundar færa rök fyrir mikilvægi samstarfs og samþættingar milli ólíkra sviða í menntakerfinu, annars vegar skólastarfs og hins vegar skipulagðs frístundastarfs þar sem unnið er með óformlegan og hálf-formlegan (e. informal og non-formal)
lærdóm. Rýna þarf í hvernig þróa megi árangursríkt skóla- og frístundastarf sem skipulagt er með farsæld sem markmið menntunar að leiðarljósi. Meginniðurstaðan er sú að móta þurfi sameiginlega sýn á það hvað farsæld felur í sér, og skýra betur hvaða hlutverki ólíkar stofnanir og faghópar gegna í að styðja farsæld nemenda (ungmenna). Það er samfélagslegt ákall og skýr stefna stjórnvalda að horfa skuli til farsældar sem markmiðs menntunar. Sýnt er fram á að aukin þekking og stuðningur við heildstæða menntun styður slík áform, en kallað er eftir dýpri hugtakaskilningi og aðgerðum menntasamfélags til að ljá fallegum orðum á blaði hagnýta jarðbindingu.

Höfundar: Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir og Kristján Kristjánsson

Sjá grein hér

Efnisorð: farsældarkenning, heildstæð menntun, menntastefna, skóla- og frístundastarf