Um áratugaskeið hafa yfirvöld menntamála hér á landi kynnt niðurstöður samræmdra prófa og PISA-rannsóknar OECD þannig að búseta sé önnur lykilbreytan til skýringar á námsframmistöðu ásamt kyni. Framleiðsla stjórnsýslu menntamála á þekkingu á tengslum búsetu og námsárangurs var skoðuð, rætt er hvernig skilgreiningar móta sýn á búsetumuninn og niðurstöður rannsókna á tengslum búsetu og þjóðfélagsstöðu raktar. Gerð var athugun á því að hve miklu leyti þjóðfélagsstaða skýrir muninn milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis á frammistöðu á PISA í lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi á náttúruvísindi í fimm umferðum PISA, frá 2003 til 2015.

Algengast var að lítil eða engin tengsl væru milli búsetu og námsframmistöðu þegar þjóðfélagsstaða nemenda hefur verið tekin með í reikninginn samkvæmt fjölbreytuaðhvarfsgreiningum. Þó voru dæmi um að þjóðfélagsstaða skýri ekki búsetumuninn. Búsetusamanburður stjórnsýslu menntamála, sem gerður er í þágu markmiða um framfarir í menntun, gerir ekki ráð fyrir mismunandi þjóðfélagsstöðu nemenda og nærir þannig þjóðarímyndun um vanmáttugt skólastarf á landsbyggðunum.

Höfundur: Þorlákur Axel Jónsson

Sjá grein

Um höfund

Þorlákur Axel Jónsson (thorlakur@unak.is) er aðjúnkt við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Þorlákur hefur yfir 20 ára starfsreynslu sem menntaskólakennari. Hann lauk cand. mag.-prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1994 en stundar nú doktorsnám á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknaráform Þorláks snúa að námsframvindu í víðum skilningi tengdri félagslegum bakgrunni, búsetu og innflytjendastöðu.

Efnisorð: búsetumunur; stjórnsýsla; þjóðfélagsstaða; námsframmistaða; PISA