Í greininni eru könnuð viðhorf framhaldsskólakennara til viðfangsefna er lúta að gagnrýninni og skapandi hugsun í upprifjunaráföngum í stærðfræði. Byggt er á viðtalsrannsókn þar sem fimm kennarar úr þremur framhaldsskólum tóku þátt. Tekin voru viðtöl bæði áður en og eftir að kennararnir lögðu verkefni fyrir nemendur í upprifjunaráföngum, þar sem beita þurfti gagnrýninni og skapandi hugsun við lausnaleit. Kennsluáætlanir áfanga voru einnig greindar.

Niðurstöðurnar benda til þess að viðhorf kennaranna til slíkra viðfangsefna séu almennt jákvæð. Tillögur komu fram um það hvernig slíkt efni mætti tvinna við annars konar verkefni en skiptar skoðanir voru um sýnidæmi og lausnir í stærðfræðinámi. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er lögð áhersla á að nemendur öðlist hæfni í stærðfræðilegri hugsun og röksemdafærslu. Vísbendingar eru um að skortur sé á viðfangsefnum í stærðfræðinámsefni fyrir nemendur í upprifjunaráföngum framhaldsskóla sem reyna á þá hæfni.

Höfundar: Jóhann Örn Sigurjónsson og Jónína Vala Kristinsdóttir

Sjá grein

Um höfunda

Jóhann Örn Sigurjónsson hefur sinnt kennslu frá árinu 2013. Hann lauk B.Ed.-prófi í faggreinakennslu í grunnskóla frá Háskóla Íslands og meistaraprófi af stærðfræðikjörsviði Menntavísindasviðs sama skóla árið 2017. Hann stundar nú nám í reiknifræði. Hann hefur starfað sem grunnskólakennari, stundakennari í Háskóla Íslands og einnig stundað alþjóðlegt meistaranám í menntarannsóknum við Háskólann í Gautaborg. Rannsóknaráhugi hans snýr að stærðfræðinámi, námsefni og þróun stærðfræðikennslu.

Jónína Vala Kristinsdóttir er dósent í stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún var bekkjarkennari í grunnskóla í 20 ár, hefur skrifað námsefni í stærðfræði fyrir miðstig grunnskóla og unnið að námskrárgerð í stærðfræði. Hún kennir grunn- og framhaldsnámskeið í kennaradeild, einkum um stærðfræðimenntun. Rannsóknarsvið hennar tengist stærðfræðinámi og -kennslu í skóla án aðgreiningar. Hún lauk doktorsnámi í menntunarfræðum haustið 2016 og fjallaði rannsókn hennar um samvinnurannsókn með bekkjarkennurum í grunnskóla með áherslu á stærðfræðinám og -kennslu nemenda með ólíkar forsendur til náms.

Efnisorð: stærðfræðimenntun; upprifjunaráfangi; framhaldsskóli; stærðfræðiverkefni; gagnrýnin hugsun