Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort nemendur sem næðu afburðaárangri í námi væru ólíkir öðrum nemendum framhaldsskóla með tilliti til skuldbindingar til náms og skóla, þarfar fyrir námsráðgjöf og tómstundaiðkunar. Spurningalisti var lagður fyrir 2.504 nemendur á 17. til 20. aldursári í öllum framhaldsskólum landsins árið 2007. Nemendur sem náðu afburðaárangri reyndust hafa meiri metnað í námi en aðrir nemendur og tóku virkari þátt í skipulögðu tómstundastarfi. Jafnframt kom fram að þeir og þeir sem náðu góðum árangri samsömuðu sig betur skóla en aðrir nemendahópar og voru virkari félagslega í skóla en sæmilegir eða slakir nemendur.

Nemendur sem náðu afburðaárangri töldu ekki síður en aðrir að þeir þyrftu ráðgjöf um námsval og fjórðungur þeirra taldi sig þurfa ráðgjöf um vinnubrögð í námi. Niðurstöður raðbreytuaðhvarfsgreiningar sýna að mikill metnaður og samsömun við skóla voru þeir þættir sem greindu þessa nemendur mest frá öðrum nemendahópum. Auk þess átti hærra hlutfall þeirra háskólamenntaða foreldra.

Höfundar: Inga Berg Gísladóttir og Kristjana Stella Blöndal

► Sjá grein

Um höfunda

Inga Berg Gísladóttir (ingaberg@hi.is) er náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands. Inga Berg lauk B.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands 2011 og meistaraprófi í náms- og starfsráðgjöf frá sama skóla 2014. Rannsóknarsvið hennar er aðallega tengt skuldbindingu nemenda til náms og skóla.

Kristjana Stella Blöndal (kb@hi.is) er dósent í náms- og starfsráðgjöf við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í uppeldis- og menntunarfræði árið 2014 við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún hefur um árabil stundað rannsóknir á námsferli og námsframvindu ungmenna, brotthvarfi nemenda frá námi og skilvirkni framhaldsskóla. Um þessar mundir er hún stjórnandi í alþjóðlega rannsóknarverkefninu International Study of City Youth (http://iscy.org) sem nær til 12 borga víðs vegar um heiminn

Efnisorð:afburðanemendur; skuldbinding til náms og skóla; náms- og starfsráðgjöf; framhaldsskóli