Rannsóknir sýna að lestraráhugahvöt hefur áhrif á ýmsar hliðar lestrarfærni, svo sem umskráningu, lesskilning og orðaforða. Börn með litla lestraráhugahvöt lesa minna en jafnaldrar með meiri lestraráhuga og sterk tengsl eru á milli slakrar lestraráhugahvatar, lítils lestrar og lestrarerfiðleika. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig lestraráhugahvöt birtist í 5. og 6. bekk meðal íslenskra nemenda, hvernig hún breytist milli ára og mögulegan kynjamun þar á. Einnig að kanna hvort um tengsl milli lestraráhugahvatar og lesskilnings sé að ræða. Þetta er fyrsta íslenska rannsóknin þar sem hlutverk lestraráhugahvatar í lesskilningi meðal nemenda á miðstigi grunnskóla er rannsakað. Þátttakendur í rannsókninni voru valdir með klasaúrtaki, 400 nemendur úr 24 bekkjum í átta skólum á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi sem svöruðu spurningalista um lestraráhugahvöt í 5. og 6. bekk. Svör þeirra voru svo tengd við gengi þeirra í lesskilningsverkefnum í 6. bekk.

Niðurstöður sýndu að lestraráhugi nemendanna var nokkuð stöðugur milli ára og stúlkurnar höfðu að meðaltali meiri lestraráhuga og forðuðust lestur síður en drengir. Þá spáði lestraráhugahvöt í 5. bekk fyrir um framfarir í lesskilningi í 6. bekk. Með auknum skilningi á mikilvægi lestraráhugahvatar í læsisþróun er hægt að þróa leiðir til að auka áhuga með það að markmiði að auka lesskilning.

Höfundar: Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, Freyja Birgisdóttir og Steinunn Gestsdóttir

Um höfunda

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir er doktorsnemi við kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk M.Ed.-prófi í kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 2013. Hún starfar sem sérfræðingur í læsi hjá Menntamálastofnun. Áhugasvið hennar snýr að rannsóknum á lestraráhugahvöt og læsi.

Freyja Birgisdóttir (freybi@hi.is) er dósent í þroskasálfræði við sálfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í þroskasálfræði frá Oxford-háskóla árið 2003. Meginrannsóknarsvið hennar er þróun lestrar, lesskilnings og ritunar og tengsl við önnur svið þroska, svo sem áhugahvöt og sjálfstjórn.

Steinunn Gestsdóttir er prófessor við sálfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá Tufts-háskóla í Bandaríkjunum 2005. Rannsóknir hennar snúa að þróun sjálfstjórnunar (e. self-regulation) og hvernig hún tengist þroskaframvindu barna og ungmenna, sérstaklega aðlögun barna að grunnskóla og æskilegum þroska ungmenna.

Efnisorð: lestraráhugahvöt; lesskilningur; miðstig; kynjamunur; mælitæki