Í greininni er fjallað um sjónarmið framhaldsskólakennara um hvað mótar störf þeirra sem tengjast námsmati og upplýsingatækni. Efniviðurinn er viðtöl við sex verkgreinakennara í ólíkum greinum og sex stærðfræðikennara í átta skólum tekin 2013 og 2014. Við greininguna var beitt tæki sem þróað var til að draga fram forsendur og sjónarmið kennaranna um hvað mótar starfshætti þeirra. Greiningartækið byggist á tveimur ásum sem annars vegar vísa til hvata til breytinga og hins vegar til eðlis breytinganna.
Niðurstöður benda meðal annars til þess að þarna sé að verki samspil kerfislægra breytinga og breytinga að frumkvæði kennara, til dæmis virtist það vera svo að ef skóli stefndi að fjölbreyttara námsmati væri frumkvæði kennaranna meira á því sviði. Enn fremur kom í ljós að þótt vefkennslukerfi væri sett upp að frumkvæði skóla réð frumkvæði kennara því hvernig til tókst. Framhaldsskólakennarar hafa vald til að útfæra stefnu yfirvalda og skólastjórnenda en eru þó bundnir nærumhverfi.
Höfundar: Elsa Eiríksdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Um höfunda
Elsa Eiríksdóttir (elsae@hi.is) er lektor í kennslufræði verk- og starfsmenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999 og meistara- og doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum 2007 og 2011. Rannsóknaráhugi hennar snýr að námi og yfirfærslu, þróun kunnáttu og verk- og starfsmenntun.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (ingo@hi.is) er prófessor í menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk BA- og cand.mag.-prófum í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1979 og 1983 og doktorsprófi í menntunarfræðum frá Wisconsinháskóla í Madison 1991. Helstu rannsóknir hans eru á menntastefnu, námskrám, framhaldsskóla og kyni og menntun.