Í þessari rannsókn voru ögunaraðferðir foreldra kannaðar. Spurningalisti var sendur til foreldra 6–17 ára barna og þeir spurðir um ögunaraðferðir. Ögunaraðferðirnar sem spurt var um falla undir a) uppbyggilegar uppeldisaðferðir, b) sálræna valdbeitingu og c) þrjú stig líkamlegrar valdbeitingar: væga, alvarlega og mjög alvarlega. Foreldrar sem svöruðu listanum (N=617) voru á aldrinum 26–76 ára.
Niðurstöður leiddu í ljós að allflestir sögðust beita uppbyggilegum og fremur lýðræðislegum ögunaraðferðum. Þó sögðust 65% hafa notað sálræna valdbeitingu af einhverju tagi sem ögunaraðferð og 19,4% sögðust hafa notað líkamlega valdbeitingu við ögun barna sinna síðastliðið ár. Yngri foreldrar beittu marktækt oftar slíkum aðferðum en eldri foreldrar. Breyturnar kyn og menntun höfðu ekki marktæk áhrif á ögunaraðferðir. Þar sem svarhlutfall var lágt (24%) gefa þessar niðurstöður ekki tilefni til að alhæfa um þýðið, en benda þó til þess að töluvert fleiri foreldrar beiti líkamlegum refsingum en opinberar tölur gefa til kynna.
Höfundur: Freydís Jóna Freysteinsdóttir
Um höfundinn
Freydís Jóna Freysteinsdóttir (fjf@hi.is) er dósent við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Hún lauk BA-gráðu árið 1992 og starfsréttindanámi í félagsráðgjöf árið 1994 frá Háskóla Íslands og hefur meistara- og doktorsgráðu frá University of Iowa sem hún lauk árin 1998 og 2004. Þá lauk hún diplómanámi í kennslufræði við Háskóla Íslands árið 2013. Helstu rannsóknarsvið hennar eru misbrestur í aðbúnaði barna, ofbeldi í parsamböndum og áhættuhegðun barna.