Guðmundur Heiðar Frímannsson. (2018). Skólar og lýðræði: Um borgaramenntun. Reykjavík: Háskólaútgáfan. 298 bls.

Frá árinu 1974 hefur lýðræði verið yfirlýst markmið íslensks skólakerfis og þegar árið 1946 var hugmyndin eða hugsjónin um lýðræði notuð til að réttlæta skipulag þessa sama kerfis. En hvað er lýðræðislegur skóli? Þótt íslensk skólasaga sé öðrum þræði átakasaga hefur lítið verið tekist á um lýðræði sem markmið og starfshætti skóla. Þetta er veikleiki í íslenskri umræðu um skóla og menntun. Það orðalag um lýðræði sem birtist í lögum um grunnskóla árið 1974 var tuggið upp í nýjum lögum og námskrám allt fram til 2007 og lítil tilraun gerð til að gefa því merkingu. Á endanum var það varla annað en dauður bókstafur. Margt í námskránum frá 1999 og 2007 gekk beinlínis í berhögg við hugsjónina um lýðræðislegan skóla. Og þótt lýðræði hafi verið endurvakið af nokkrum þrótti með nýrri aðalnámskrá árið 2011 þá mun það aftur verða deyfð og dauða að bráð ef ekki er tekist á um það. Þess vegna er bók Guðmundar Heiðars Frímannssonar, Skólar og lýðræði: Um borgaramenntun, ekki bara skemmtilegt og áhugavert innlegg í íslenska skólaumræðu, hún er beinlínis nauðsynleg til að halda lífi – og þar með bæði viti og biti – í hugmyndinni um að skólar hafi sérstöku lýðræðislegu hlutverki að gegna.

Höfundur ritdóms: Ólafur Páll Jónsson

Sjá ritdóm hér