Erlendar rannsóknir hafa sýnt að algengt er að kennaranemar um allan heim hafi neikvæðar tilfinningar gagnvart stærðfræði og neikvæða mynd af sjálfum sér sem stærðfræðiiðkendum Í þessari rannsókn er sjónum beint að viðhorfum íslenskra kennaranema til stærðfræði og hvernig þau viðhorf mótast og þróast yfir tíma. 76 nemendur á öðru ári í kennaranámi skrifuðu um tilfinningar sínar og reynslu sem nemendur í stærðfræði allt frá grunnskóla til háskóla. Nemendur voru meðal annars beðnir að segja frá bæði bestu og verstu minningum úr stærðfræðinámi sínu og setja fram graf sem lýsti tilfinningum þeirra til fagsins gegnum lífið. Reynslan sem sögurnar lýstu var margvísleg, allt frá því að aldrei hafði sést til sólar í stærðfræðináminu til þess, sem sjaldgæfara var, að stærðfræðinámið hafði gengið vel frá upphafi. Allmennt sýndu niðurstöður þó að það sem einkenndi viðhorf margra kennaranema til stærðfræði var neikvæð tilfinningaleg afstaða, festuhugarfar og tækniskilningur.

Höfundar: Ingólfur Gíslason, Berglind Gísladóttir

Efnisorð: viðhorf; hugarfar; sýn á stærðfræði; kennaranemar