Fyrstu tvö árin í starfi hafa mikilvæg áhrif á fagmennsku kennara. Í greininni er sjónum beint að mótun starfskenningar nýrra framhaldsskólakennara til að skilja betur hvaða þættir ráða þar för. Rannsóknin er byggð á eigindlegum gögnum.1 Í ársbyrjun 2016 voru tekin viðtöl við átta nýliða í framhaldsskólum. Niðurstöður benda til þess að nýir kennarar átti sig á því að starfskenning þeirra er í stöðugri þróun. Nokkrir þættir virðast vega þyngra en aðrir í því ferli. Þar má nefna samskipti við nemendur, áhrif leiðsagnar og skólamenningu viðkomandi skóla. Leiðsögn fyrir nýliða er víða ómarkviss og skólamenning framhaldsskólanna veitir ekki nægan stuðning. Engu að síður virðast nýliðar þróa með sér seiglu sem er mikilvægur þáttur í starfskenningu.
Höfundar: Hildur Hauksdóttir, María Steingrímsdóttir og Birna María B. Svanbjörnsdóttir
Um höfunda
Hildur Hauksdóttir lauk BA-prófi í ensku frá Háskóla Íslands árið 2000, kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri árið 2005 og meistaranámi frá sama skóla árið 2016. Í meistaranáminu tók Hildur leiðsögn og starfsþróun sem áherslusvið. Hún hefur starfað við Menntaskólann á Akureyri sem enskukennari og verkefnastjóri frá árinu 2004.
María Steingrímsdóttir er dósent við kennaradeild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1972 og starfaði sem grunnskólakennari um árabil. María lauk meistaraprófi í menntunarfræðum með áherslu á stjórnun frá kennaradeild Háskólans á Akureyri árið 2005. Rannsóknir hennar beinast að nýliðum í kennarastarfi, starfstengdri leiðsögn, starfsþróun kennara og kennaramenntun.
Birna María B. Svanbjörnsdóttir er lektor við kennaradeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1988 og starfaði sem grunnskólakennari um árabil. Birna lauk meistaraprófi frá Háskólanum á Akureyri 2005 og doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2015. Helstu áherslur í rannsóknum hennar lúta að starfsþróun kennara og uppbyggingu og þróun faglegs lærdómssamfélags.