Fjölgun nemenda í háskólanámi frá árinu 2002 og breyttar áherslur í kennslufræði hafa leitt til nýrrar stefnu í háskólakennslu með áherslu á fjölbreytta kennsluhætti. Hér er greint frá rannsókn tveggja kennara á eigin kennslu í fjölmennu meistaranámskeiði í eigindlegum rannsóknaraðferðum. Námskeiðið byggðist á vendikennslu og var nemendum skipt í fimm umræðuhópa. Strax í byrjun misseris upplifðu kennarar mikinn mun á milli hópanna. Gagnasöfnun var því hafin með það að markmiði að reyna að skilja betur í hverju munurinn lægi og geta með því bætt kennsluna þannig að hún næði til ólíkra hópa.
Niðurstöður benda til þess að þó að flestir nemendur hafi vitað að ætlast væri til djúpnálgunar hafi sumir þeirra upplifað óöryggi sem leiddi til yfirborðsnálgunar. Aðrir nemendur voru mjög gagnrýnir á eigindlegar rannsóknaraðferðir og þetta tvennt gerði það að verkum að kennurunum fannst kennslan erfiðari en í þeim hópum þar sem nemendur voru jákvæðir gagnvart námsefninu og kennsluaðferðunum.
Höfundar: Margrét Sigrún Sigurðardóttir og Thamar Melanie Heijstra
Um höfunda
Margrét Sigrún Sigurðardóttir (mss@hi.is) er lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands 1998, MS-gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2004 og doktorsgráðu frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn 2010.
Thamar Melanie Heijstra (thamar@hi.is) er lektor við Félags- og mannvísindadeild, Háskóla Íslands. Hún lauk BA-gráðu 2006, MA-gráðu 2008 og doktorsgráðu 2013, öllum í félagsfræði frá Háskóla Íslands.