Í greininni er rakin saga náms- og starfsráðgjafar á Íslandi frá upphafi á sjötta áratug síðustu aldar og fram að aldamótunum 2000. Sérstök áhersla er lögð á að segja frá frumkvöðlum náms- og starfsráðgjafar og frá athöfnum stjórnvalda. Þetta var skrykkjótt ferli, til dæmis hófst lagasetning um náms- og starfsráðgjöf á framhaldsskólastigi árið 1970 en ekki fyrr en árið 1991 á grunnskólastigi. Af stjórnvaldsathöfnum má þó ráða að þörfin fyrir þessa þjónustu hafi farið vaxandi allt þetta tímabil og í lögum, reglugerðartextum, námskrám og ráðuneytisskýrslum voru sett fram skilgreind markmið náms- og starfsráðgjafar á hverjum tíma, sem falla að hugmyndum um velferð þegnanna í námi og starfi.

Í greininni kemur fram að viðvarandi verkfæraskortur var í faginu, til dæmis vantaði heildstætt upplýsingakerfi um nám og störf og færni- og áhugakannanir. Með tilkomu náms í námsráðgjöf við Háskóla Íslands árið 1990 skapaðist grunnur að faglegri og almennri þjónustu í náms- og starfsráðgjöf.

Höfundur: Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

Sjá grein

Um höfundinn

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir (gudvil@hi.is) er prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Félagsog mannvísindadeild Háskóla Íslands. Hún tók embættispróf í náms- og starfsráðgjöf frá Université de Lyon II árið 1985 og lauk maîtrise-gráðu frá Université de Paris-Sorbonne árið 1987. Þá lauk hún doktorsprófi frá University of Hertfordshire í Englandi árið 2004. Meginrannsóknarefni eru félagsleg áhrif á náms- og starfsval, sérstaklega út frá habitus og kynferði, mat á fræðslu og ráðgjöf um nám og störf, saga náms- og starfsráðgjafar á Íslandi, aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli, viðtalsgreining og frásagnarráðgjöf.

Efnisorð: saga náms- og starfsráðgjafar; náms- og starfsráðgjöf; náms- og starfsfræðsla