Í greininni er fjallað um sameiginlega hópleiðsögn þriggja leiðbeinenda meistaranema. Tilgangur rannsóknarinnar var að sýna fram á gildi þess að búa til námssamfélag nemenda og kennara um vinnu að meistaraprófsverkefni. Markmið rannsóknarinnar var að auka skilning á vinnuferli nemenda í meistaraprófsverkefni og lýsa því hvernig við byggðum upp námssamfélag þeirra yfir sex ára tímabil. Við nýttum aðferðafræði starfstengdrar sjálfsrýni til að geta betur skilið ferli nemenda í meistaraprófsverkefninu og hvernig við unnum úr áskorunum. Rannsóknargögn eru skráð ígrundun, fundarupptökur og gögn um samskipti við nemendur.
Fræðilegur rammi rannsóknarinnar er byggður á hugmyndum um tengsl fræða og kennarastarfs og um ígrundun í anda starfstengdrar sjálfsrýni. Enn fremur byggjum við á hugmyndum um námssamfélög og um nám sem ferðalag um landslag þekkingar. Niðurstöðurnar sýna að nemendur upplifa fundina sem námssamfélag sem veitir þeim stuðning, dregur úr einmanaleika og heldur þeim við efnið í meistaraprófsverkefninu. Ólíkir styrkleikar okkar leiðbeinendanna nýttust vel í samstarfinu og efldu sameiginlega getu okkar til að leiðbeina.
Höfundar: Svanborg R. Jónsdóttir, Hafdís Guðjónsdóttir og Karen Rut Gísladóttir
Um höfunda
Svanborg R. Jónsdóttir er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1978 með íslensku og dönsku sem aðalgreinar. Hún lauk M.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2005 með áherslu á nýsköpunarmennt. Árið 2011 lauk hún doktorsnámi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er titill doktorsritgerðar hennar The location of innovation education in Icelandic compulsory schools. Rannsóknir hennar snúast um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, námskrárfræði, skapandi skólastarf, breytingastarf og starfstengda sjálfsrýni í kennaramenntun.
Hafdís Guðjónsdóttir er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá University of Oregon árið 2000 og er titill doktorsritgerðar hennar Responsive professional practice: Teachers analyze the theoretical and ethical dimensions of their work in diverse classrooms. Áður en Hafdís hóf störf við Menntavísindasvið kenndi hún í 26 ár við grunnskóla og sinnti bæði bekkjar- og sérkennslu. Hafdís vinnur út frá hugmyndum um skóla án aðgreiningar, fjölmenningarlega kennslu, þróun námskrár og kennsluhátta í skóla án aðgreiningar, fagmennsku kennara og samstarf þeirra aðila sem koma að skólastarfi. Hafdís hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Hún leggur áherslu á eigindlegar rannsóknir, starfendarannsóknir og faglega sjálfsrýni háskólakennara.
Karen Rut Gísladóttir er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Karen Rut hóf starfsferilinn sem íslenskukennari. Hún lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í mars 2011. Doktorsverkefni hennar var starfendarannsókn þar sem hún reyndi að átta sig á hvernig hún sem íslenskukennari heyrnarlausra nemenda gæti byggt íslenskukennslu á auðlindum nemenda. Rannsóknir Karenar Rutar snúa að læsi í víðum skilningi og fjölmenningarlegum kennsluháttum. Hún leggur áherslu á starfendarannsóknir, eigindlegar rannsóknir og faglega sjálfsrýni háskólakennara.