Starfsmannavelta meðal skólastjóra í grunnskólum hér á landi hefur ekki mikið verið rannsökuð. Helsti hvati slíkra rannsókna er að kanna hreyfanleika eða stöðugleika í starfi því rannsóknir benda almennt til þess að mikil starfsmannavelta í skólumn hafi neikvæð áhrif á skólastarf. Þessi rannsókn byggist á upplýsingum frá Hagstofu Íslands um skólastjóra sem störfuðu í íslenskum grunnskólum á árunum 1998 til 2020. Meginniðurstöður eru þær að stöðugleiki meðal skólastjóra í grunnskólum
sé talsverður, það er að þeir starfi að meðaltali nokkuð lengi í sama skóla. Aðeins um fimmtungur hópsins stýrði fleiri en einum skóla, það er færði sig til milli skóla. Stöðugleiki var meiri í stórum skólum en litlum og sést það til að mynda á því að í litlum skólum á landsbyggðinni er stöðugleikinn mun minni en í stórum skólum. Niðurstöður sýna að almennt er stöðugleiki talsverður en tíð skólastjóraskipti eru helst í litlum skólum sem eru flestir á landsbyggðinni.
Höfundar: Börkur Hansen og Amalía Björnsdóttir
Efnisorð: starfsmannavelta, skólastjórar, grunnskólar, stöðugleiki, hreyfanleiki