Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvað einkenndi kennsluhætti í náttúrufræði á öllum stigum grunnskólans, hvort og hvernig áherslur aðalnámskrár birtust í kennslunni. Með þessu er þess vænst að veita megi upplýsingar um náttúrufræðikennslu sem nýst gætu við stefnumótun og starfsþróun kennara. Gögnum var safnað um skipulag kennslunnar og aðbúnað. Byggt var á vettvangsathugunum úr 23 kennslustundum í gagnasafni rannsóknarinnar Starfshættir í grunnskólum og 22 athugunum sem gerðar voru með sömu aðferðum árin 2016–2018. Niðurstöður bentu til þess að kennslan einkenndist mikið af beinni kennslu, miðlun efnis í bland við spurningar og spjall og skriflegum verkefnum. Verkleg kennsla var lítil og áhersla á lífvísindi áberandi. Langflestar kennslustundir í náttúrufræði fóru fram í almennri kennslustofu og fátt var í þeim sem minnti á náttúrufræði. Algengara var að kennsla á unglingastigi færi fram í náttúrufræðistofu. Lítið virtist hafa breyst í kennsluháttum frá fyrri rannsóknum. Kennslan þyrfti að fara fram í umhverfi sem væri betur sniðið að náttúrugreinum og snúast meira um vísindahugtök, verklegar æfingar og hugmyndir nemenda. Efla þarf stuðning við náttúrufræðikennara og starfsþróun þeirra til að styrkja fagþekkingu kennara.

Höfundar: Svava Pétursdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir

Sjá grein hér

Efnisorð: náttúrufræði, grunnskóli, kennsluhættir, námsumhverfi