Ákvæði grunnskólalaga um að búa eigi nemendur undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi er hér skoðað í ljósi hugmynda Sigrúnar Aðalbjarnardóttur. Skólastarf í anda þessa ákvæðis veltur óhjákvæmilega á því hvaða skilningur er lagður í lýðræði, hvað það þýði að búa og starfa í lýðræðisþjóðfélagi. Kynnt eru til sögunnar þrjú lýðræðisviðhorf sem fela í sér ólíka sýn á borgarana og mismunandi hugmyndir um borgaravitund nemenda sem búa skal undir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Því er haldið fram að í menntunarkenningu og menntunarstarfi Sigrúnar sé samræðuhæfni lykilhugtak sem felist einkum í því að fást farsællega við félagslegan ágreining og mynda samstöðu um sameiginleg gildi. Samkvæmt Sigrúnu beinist samræðan síður að því að meta vægi raka og réttmæti gilda, en það krefst ræktunar gagnrýninnar hugsunar og rökræðufærni.
Færð eru rök fyrir því að bæði samstaða um lýðræðisleg gildi og gagnrýnin rökræða sé nauðsynleg til að takast á við þær áskoranir sem lýðræðissamfélagið stendur nú frammi fyrir.
Höfundur: Vilhjálmur Árnason
Um höfundinn
Vilhjálmur Árnason (vilhjarn@hi.is) er prófessor í heimspeki og formaður stjórnar Siðfræðistofnunar við Háskóla Íslands. Hann lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntasögu og heimspeki og kennsluréttindum í þeim greinum frá Háskóla Íslands 1978. Hann stundaði framhaldsnám í heimspeki við Purdue-háskóla í Indianaríki í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi 1982. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands frá 1983 og hefur einkum stundað rannsóknir á sviði hagnýtrar siðfræði og félagslegrar og pólitískrar heimspeki.