""

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvernig innflytjendafjölskyldur sem eiga fötluð börn takast á við daglegt líf hér á landi, samskipti þeirra við nærsamfélagið og þjónustukerfin sem ætlað er að styðja fjölskyldur fatlaðra barna. Rannsóknarsniðið var eigindlegt og byggðist á viðtölum við foreldra og þátttökuathugunum á heimilum þeirra.

Tólf innflytjendafjölskyldur tóku þátt í rannsókninni. Þær höfðu dvalið á Íslandi allt frá 18 mánuðum til 20 ára og áttu samtals 16 fötluð börn. Reynsla fólksins var margþætt og breytileg en staða margra fjölskyldna var erfið, þær stóðu einar og höfðu lítið stuðningsnet. Þótt samanburðurinn við upprunalandið væri hugsanlega hagstæður gat reynst erfitt að takast á við og samþætta viðfangsefni daglegs lífs. Óvissa í húsnæðismálum, atvinnumálum og fjármálum mótaði líf margra. Tungumálakunnátta, tryggur fjárhagur, öruggt húsnæði og viðeigandi stuðningur réð mestu um það hvernig fjölskyldunum farnaðist í nýju landi. Mikilvægt er að huga að samskiptum og upplýsingagjöf í þjónustu við innflytjendafjölskyldur með fötluð börn og hafa menningarhæfni að leiðarljósi.

Höfundar: Snæfríður Þóra Egilson, Unnur Dís Skaptadóttir og Guðbjörg Ottósdóttir

►Sjá grein

Um höfunda

Snæfríður Þóra Egilson (sne@hi.is) er prófessor í fötlunarfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk diplómaprófi í iðjuþjálfun í Osló árið 1981, meistaraprófi í iðjuþjálfun frá Háskólanum í San Jose í Kaliforníu árið 1994 og doktorsprófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2005. Rannsóknir Snæfríðar hafa einkum beinst að lífsgæðum, þátttöku, umhverfi og aðstæðum fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra.

Unnur Dís Skaptadóttir (unnurd@hi.is) er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi við Graduate School and University Center of the City University of New York árið 1995. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að reynslu ólíkra hópa innflytjenda og flóttafólks á Íslandi og hafa meðal annars fjallað um vinnutengda flutninga, þverþjóðleika, þjóðerni og kyngervi.

Guðbjörg Ottósdóttir (gudbjoro@hi.is) er lektor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í mannfræði frá Ball State háskóla 1987 og meistaraprófi í félagsfræði frá Western Michigan-háskóla í Bandaríkjunum 1991, B.S.-prófi í félagsráðgjöf frá Carleton-háskóla í Kanada 1997 og doktorsprófi í mannvistarlandfræði frá Readingháskóla í Englandi 2015. Rannsóknir Guðbjargar hafa einkum snúið að málefnum innflytjenda og flóttafólks, þátttöku í samfélagi og reynslu af velferðarþjónustu.

Efnisorð: innflytjendur; fjölskyldur; fötluð börn; daglegt líf; þjónusta og stuðningur