""

Mikilvægt er fyrir framtíð lýðræðissamfélaga að hlúa strax í æsku að borgaravitund barna og ungmenna, bæði góðum gildum og þátttöku í samfélaginu. Í þessari tilviksrannsókn var skoðað hvernig borgaravitund tveggja ungmenna endurspeglar uppeldissýn foreldra þeirra og gefa meginniðurstöður hennar til kynna skýra samsvörun þar á milli. Veganesti foreldranna var áhersla á náin samskipti sem einkenndust af umhyggju og stuðningi, djúpar samræður og gildismat þar sem vægi virðingar, skilnings, velferðar samborgara og samfélagsábyrgðar var mikið. Þá nefndu bæði foreldrarnir og ungmennin mikilvægi nokkurra óformlegra borgaralegra viðmiða, eins og að fylgja lögum, vera vinnusamur og koma vel fram við aðra.

Gildi rannsóknarinnar liggur í vísbendingum um að foreldrar gegni mikilvægu hlutverki við að efla borgaravitund barna sinna. Til að styðja við borgaravitund ungmenna þurfa foreldrar að setja það í forgang í uppeldinu að rækta góð samskipti, hlúa að gildismati og gefa samræðu þar sem rædd eru ólík sjónarmið og lausnir fundnar aukið vægi.

Höfundar: Ragný Þóra Guðjohnsen og Hrund Þórarins Ingudóttir

►Sjá grein

Um höfunda

Þóra Guðjohnsen (ragny@hi.is) er lektor við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2016 og M.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá sama skóla árið 2009. Hún lauk einnig embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1992. Rannsóknir hennar beinast að borgaravitund og þátttöku ungmenna en einnig að áhættuhegðun og velferð barna og ungmenna.

Þórarins Ingudóttir (hrundin@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hrund lauk meistaraprófi (2008) og doktorsprófi (2015) í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Hrund stundaði nám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf við University of Minnesota sem hluta af doktorsnámi sínu. Helstu rannsóknarsvið Hrundar eru uppeldissýn foreldra – gildi þeirra, markmið og leiðir, auk þess sem hún skoðar þróun foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafar á Íslandi.

Efnisorð: borgaravitund; ungmenni; foreldrar; gildi; samskipti