Frá því á áttunda áratugnum hefur lýðræðisleg borgaravitund verið markmið íslensks menntakerfis og viðfangsefni Sigrúnar Aðalbjarnardóttur í kennslu og rannsóknum. Á síðustu áratugum hefur orðið vitundarvakning um þessi málefni. Í nýlegu riti Evrópuráðsins, Competences for Democratic Culture, er sett fram líkan með 20 ólíkum tegundum af hæfni sem lýðræðisleg borgaravitund krefst, þar sem hæfnin er ýmist (i) gildi, (ii) viðhorf, (iii) færni eða (iv) þekking og skilningur (Council of Europe, 2016).
Líkan Evrópuráðsins er gagnrýnt og lögð til sú skilgreining á lýðræðislegri hæfni að hún sé samþætt úr gildum, viðhorfum, færni og þekkingu. Þessi skilningur er settur í samhengi við rannsóknir Sigrúnar á borgaravitund í lýðræðisþjóðfélagi. Í riti Evrópuráðsins er lýðræðisleg hæfni ekki sett í samhengi við ólíkar kenningar um lýðræði og því er ekki alltaf ljóst hvað geri hæfni lýðræðislega. Í greininni er þrenns konar kenningum um lýðræði lýst og skilgreindar eru sjö tegundir lýðræðislegrar hæfni sem byggjast á hugmyndum um lýðræði í anda Johns Dewey.
Höfundur: Ólafur Páll Jónsson
Um höfundinn
Ólafur Páll Jónsson (opj@hi.is) er prófessor í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hann lauk meistaraprófi í heimspeki frá Háskólanum í Calgary í Kanada og doktorsprófi í sömu grein frá MIT í Bandaríkjunum. Ólafur Páll hefur skrifað fjölda greina um heimspeki menntunar, einkum um lýðræði, réttlæti og menntun án aðgreiningar. Hann hefur einnig gefið út nokkrar bækur, m.a. Lýðræði, réttlæti og menntun (Háskólaútgáfan, 2011).