Markmið rannsóknarinnar er að bæta við þekkingu á sýn leikskólabarna með fjölbreyttan bakgrunn á þátttöku sína og vellíðan í leikskólanum. Einnig voru könnuð viðbrögð starfsfólks leikskólans við sjónarmiðum barnanna. Hugtakið fullgildi (e. belonging) var notað til að varpa ljósi á félagsleg samskipti og þátttöku barnanna í samfélagi leikskólans. Rannsóknin var gerð á leikskóladeild þar sem dvöldu saman 19 börn og fjórir starfsmenn. Níu börn kusu að taka þátt eftir að hafa fengið leyfi frá foreldrum og útskýringar á því hvað þátttakan fæli í sér. Einnig voru könnuð viðbrögð starfsfólks leikskólans við sjónarmiðum barnanna. Börnin tóku myndir á spjaldtölvur og voru myndirnar notaðar sem kveikja að samræðu um fullgildi þeirra í leikskólanum. Niðurstöðurnar benda til þess að í hugum barnanna snúist fullgildi aðallega um vináttutengsl þeirra við önnur börn í leikskólanum. Börnin léku sér frekar við börn með svipaðan tungumála- og menningarbakgrunn og þau sjálf. Börn með annan bakgrunn en íslenskan voru frekar útilokuð frá leik en börn með íslenskan bakgrunn. Börnin, sem tóku þátt, voru sjálfstæð og sjálfbjarga í daglegu starfi leikskólans og leituðu ekki til starfsfólksins eftir stuðningi þegar eitthvað bjátaði á, heldur drógu sig frekar í hlé. Starfsfólkið ígrundaði starfshætti sína út frá sjónarmiðum barnanna og hafði ýmsar hugmyndir um fullgildi þeirra. Þær hugmyndir virtust þó ekki endurspeglast nema að litlu leyti í starfsháttum þess.

Höfundar: Jóhanna Einarsdóttir, Sara M. Ólafsdóttir

Efnisorð: leikskóli; fjölmenning; bernskurannsóknir; fullgildi

Sjá grein hér