Áhyggjur af því að rými barna í leikskólum sé of lítið urðu til þess að ákveðið var að rannsaka það. Mældar voru 38 leikskóladeildir í 30 leikskólum á höfuðborgarsvæðinu og tekin viðtöl við deildarstjóra í þriðjungi skólanna. Hér er gerð grein fyrir völdum hlutum rannsóknarinnar. Í fyrsta lagi er sagt frá þróun reglna um rými í leikskólum. Í öðru lagi er gerð grein fyrir niðurstöðum mælinganna í ofannefndri rannsókn. Í þriðja lagi er greint frá niðurstöðum úr viðtölunum við deildarstjórana um það hvernig rýmið er notað og hvaða áhrif það hefur á starfsaðstæður þeirra. Niðurstöður eru meðal annars að í leikskólum á Íslandi eru mikil þrengsli og þótt deildarstjórar, allt konur, sýni hugkvæmni í nýtingu rýmisins upplifi þær sig valdalausar og vanmáttugar gagnvart aðstæðum. Niðurstöðurnar undirstrika að gera þurfi breytingar á aðstæðum barna í leikskólum, ekki síst að fækka þegar í stað börnum á hverri deild og skapa þannig meira rými og betra leikskólaumhverfi.

Höfundar: Hörður Svavarsson og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Efnisorð: leikskólar, rými, þrengsli, valdaleysi

Lesa grein