Hlutverk leikskóla er margslungið og tekur mið af breytingum í samfélaginu hverju sinni. Á tímum heimsfaraldurs kom það vel í ljós hversu mikilvægu hlutverki leikskólar gegna í samfélaginu. Á einni nóttu upplifðu leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla sig vera komin í framvarðasveit þar sem starfsemi leikskóla var haldið gangandi á óvissutímum, þó með vissum takmörkunum, og starfsfólk gat lítið varið sig fyrir veirunni. Markmið rannsóknarinnar sem hér er sagt frá var að skoða hvernig leikskólastjórar og deildarstjórar upplifðu samfélagsleg viðhorf til leikskóla í heimsfaraldrinum. Jafnframt var ætlunin að kanna hvernig stjórnendur leikskóla upplifðu hlutverk sitt í framvarðasveit og hvernig þekking þeirra og fagmennska nýttist í því hlutverki. Gögnum var safnað með 11 einstaklingsviðtölum við leikskólastjóra og deildarstjóra. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að leikskólastjórnendur upplifðu starfsfólk leikskóla vera berskjaldaða framvarðasveit á tímum Covid-19. Einnig sýndu niðurstöður mikilvægi þess að halda fagmennsku leikskólakennara á lofti og gildi þess að hugað sé að hlutverki leikskólans sem menntastofnunar og að þjónustuhlutverk fyrir atvinnulífið yfirgnæfi það ekki.

Höfundar: Svava Björg Mörk og Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

Efnisorð: framvarðasveit, fagmennska, leikskólinn, menntastofnun, þjónustustofnun

Lesa grein