Launað starfsnám hefur staðið nemendum á lokaári í kennaranámi til boða frá haustinu 2019. Í fyrri rannsókn var reynsla nema af launuðu starfsnámi skoðuð. Þar kom fram að þeir voru ánægðir með starfsnámið og töldu helsta ávinninginn felast í aukinni fagmennsku. Niðurstöðurnar sýna þó að um fjórðungur nema taldi sig sjaldan eða aldrei hafa fengið þá leiðsögn sem lagt er upp með í samningi um launað starfsnám. Í þessari rannsókn var markmiðið að kanna reynslu leiðsagnarkennara og leikskólastjóra af starfsnáminu. Gögnum var safnað með rýnihópaviðtölum við leiðsagnarkennara og leikskólastjóra sem höfðu sinnt leikskólakennaranemum í launuðu starfsnámi. Spurt var um sýn á eigið hlutverk í starfsnáminu og reynslu þátttakenda af því.
Leiðsagnarkennararnir töldu hlutverk sitt einkum felast í því að styðja nemann í starfi en leikskólastjórar áttu erfiðara með að átta sig á sínu hlutverki. Niðurstöðurnar sýna fram á ávinning af launuðu starfsnámi, fyrir nemann, leiðsagnarkennarann og faglegt starf leikskólans.
Höfundar: Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir og Svava Björg Mörk
Efnisorð: Leiðsagnarkennari, leikskólastjóri, launað starfsnám, vettvangsnám, leikskólakennaranám






