Rannsóknir hafa sýnt að vísindalæsi unglinga á Íslandi fari dvínandi og að kennsla í náttúruvísindum sé ekki nógu fjölbreytt. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna (1) menntun, starfsaldur og endurmenntunnáttúruvísindakennara á höfuðborgarsvæðinu, (2) hvernig þessir þættir tengjast tíðni verklegrar kennslu, útináms og skapandi aðferða, (3) hvaða kennsluaðferðum kennarar beita almennt og hvernig þær endurspegla hugmyndir þeirra um gæði kennslu, og (4) hvaða áskorunum þeir standa frammi fyrir við beitingu þeirra. Alls tóku 40 kennarar á unglingastigi þátt.

Niðurstöðurnar sýndu að reyndari og sérmenntaðir kennarar beittu oftar verklegri kennslu og útinámi, en útinám og skapandi verkefni voru þó sjaldgæf. Helstu hindranir tengdust tímaleysi, aðstöðuleysi og stærð nemendahópa. Þær leiddu til þess að kennsla var síður í takt við væntingar og fagleg markmið kennara. Endurmenntun hafði ekki marktæk áhrif en virtist styðja virkni í verklegri kennslu. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi fagmenntunar, endurmenntunar og viðeigandi aðbúnaðar til að efla fjölbreytta náttúruvísindakennslu.

Höfundar: Edda Elísabet Magnúsdóttir, Aðalheiður Jóna Magnúsdóttir og Magdalena Ósk Bjarnþórsdóttir

Efnisorð: Náttúruvísindakennsla, verkleg kennsla, útinám, skapandi kennsla, vísindalæsi,
unglingastig

Lesa grein