Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvernig börn í einum leikskóla skilgreina vináttu og mynda vinatengsl í leik og hvernig starfsfólk styður þessi tengsl. Fræðilegur grunnur hennar er hugmyndir um félagsmótun barna í leik og kenningar um mikilvægi þátttöku leikskólakennara í sjálfsprottnum leik barna. Eigindlegri aðferðafræði var beitt og gagna aflað með viðtölum við börn og starfsfólk, vettvangsnótum og myndbandsupptökum af leik barnanna.
Niðurstöðurnar sýna að börnin tengja vináttu við hjálpsemi, samveru og jákvæð samskipti en upplifa að kennararnir taki sjaldan þátt í leik með þeim. Starfsfólkið lýsti ýmsum leiðum til að styðja félagsfærni barna og áréttaði mikilvægi sveigjanlegs dagskipulags og rólegs leikumhverfis. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á mikilvægi þess að kennarar séu þátttakendur í leik barna og að skapa þurfi aðstæður sem styðja tengslamyndun og inngildingu.
Höfundar: Júlíana Rose Júlíusdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir
Efnisorð: Efnisorð: vinátta barna, félagsfærni, leikur, hlutverk leikskólakennara, inngilding






