Þessi yfirlitsgrein veitir yfirlit yfir rannsóknir á skólaíþróttum á Íslandi á árunum 2013–2023. Markmiðið var að fá yfirsýn yfir allar þær rannsóknargreinar sem tóku fyrir skólaíþróttafagið síðan ný námskrá í skólaíþróttum tók gildi. Niðurstöður sýndu að einungis ein rannsóknargrein um skólaíþróttir á Íslandi var gefin út á umræddu tímabili. Þess vegna var ákveðið að athuga einnig hvaða rannsóknarþemu voru tekin fyrir á áðurnefndu tímabili af þeim sem sinna menntun verðandi íþróttakennara. Þrjú algengustu rannsóknarþemun voru þjálffræði, heilsa og frammistöðugreining. Niðurstöðurnar vekja spurningar um það hversu rannsóknamiðuð menntun íþróttakennaranema er, en þeir eru umtalsverður hluti nemendahópsins í íþróttafræði hverju sinni. Meðal annars er lagt til að kennarar séu hvattir til að rannsaka skólaíþróttir í auknum mæli. Umræddar breytingar gætu stuðlað að breyttum áherslum í kennslu íþróttakennara sem og íþróttafræðinga.
Höfundur: Aron Laxdal
Efnisorð: heilsuorðræða, kennaranám, leikfimi, rannsóknamiðuð kennsla