Rannsóknin miðar að því að skoða þróun námsgreinarinnar sjónlista í skyldunámi barna á Íslandi frá fræðslulögunum 1907 með það að markmiði að auka yfirsýn, efla þekkingu og þróun í þágu stefnumótunar og umbóta, auka sýnileika greinarinnar og skerpa framtíðarsýn. Rannsóknaraðferðin fólst í innihaldsgreiningu tengdra skjala og rýni laga um menntun, reglugerða, námskráa og opinberra skýrslna. Leitast var við að athuga hvað þessi gögn segja um sjónlistakennslu á mismunandi tímum og gera grein fyrir sögulegri þróun hennar. Gögn voru kóðuð og þemagreind og sýndu niðurstöðurnar sjö efnisþætti sem voru: vægi, markmið, kennsluaðferðir, námsmatsaðferðir, aðstaða, tímafjöldi og samþætting. Rannsóknin sýnir að sjónlistir hafa verið mikilvægur þáttur í alþýðumenntun á Íslandi í gegnum tíðina þar sem greinin hefur verið hluti af námskrá skyldunáms frá því árið 1929. Hins vegar er ljóst að áherslur hafa tekið miklum breytingum á rúmum hundrað árum.

Höfundur: Sandra Rebekka Önnudóttir Arnarsdóttir

Efnisorð: Sjónlistakennsla, aðalnámskrá, námskrárþróun, saga