Rannsóknin sem hér er kynnt er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem fólst í eigindlegum tilviksrannsóknum í þremur ólíkum sveitarfélögum. Aðalmarkmiðið var að kanna samspil milli opinberra þjónustumarkmiða um þjónustu við fjölskyldur fatlaðra barna og framkvæmdar þjónustunnar. Í fyrri hluta verkefnisins var lögð áhersla á reynslu foreldra af þjónustukerfinu. Niðurstöðurnar leiddu í ljós almenna ánægju með leikskólann en þjónustufyrirkomulagið utan hans var gagnrýnt. Þessi grein fjallar um síðari hluta rannsóknarverkefnisins sem hafði það að markmiði að varpa ljósi á störf og starfsaðstæður fagfólks utan leikskólans í ljósi hugmyndafræðilegra breytinga undanfarinna ára. Helstu niðurstöður benda til þess að þjónustufyrirkomulagið sé sundurlaust og einstaklingsmiðað, þrátt fyrir fjölskyldumiðaða sýn í opinberri stefnumörkun í áratugi. Þá einkennast störf og starfsaðstæður fagfólks utan leikskólans af læknisfræðilegum áherslum og kerfislægum ósveigjanleika. Í greinarlok eru kynntar hugmyndir að starfs- og þjónustuþróun í anda opinberra stefnumarkmiða með verkfærum byggðum á menningarsögulegri starfsemiskenningu (CHAT).
Höfundur: Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir
Efnisorð: fötluð börn, fjölskyldumiðuð þjónusta, leikskóli, tilviksrannsókn, starfs- og þjónustuþróun, CHAT