Tilgangur og markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig börn túlka og endurskapa reynslu sína og þekkingu í sjálfsprottnum leik. Um er að ræða tilviksrannsókn sem fór fram í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Rannsóknargögn voru myndbandsskráning. Leitast er við að skilja og túlka leikheim fimm fimm ára stelpna, með áherslu á kyngervi, túlkandi endursköpun, félagslega framsetningu og sameiginlegan spuna stelpnanna í leiknum. Lítið hefur verið rannsakað hvernig ung börn túlka kyngervi og endurskapa slíka þekkingu í leik og hvernig félagsleg framsetning þeirra er þar, líkt og gert er í þessari rannsókn. Niðurstöður sýna yfirgripsmikla þekkingu stelpnanna á viðfangsefninu. Þannig beittu þær mismunandi félagslegri framsetningu í leiknum, svo sem að stjórna á opinn hátt, að stjórna bak við tjöldin og beita fylgjandi framsetningu, og einnig mátti greina áherslur á kvenlæga og karllæga þætti eftir því hvaða hlutverk þær léku.
Höfundur: Guðrún Alda Harðardóttir
Efnisorð: kyngervi, leikskóli, sjálfsprottinn leikur, túlkandi endursköpun, sameiginlegur
spuni, félagsleg framsetning