Hér er um að ræða eftirfylgnirannsókn á reiðistjórnunarúrræðinu ART. Mat á ART-úrræðinu er byggt á svörum frá kennurum tólf barna sem luku ART-meðferð haustið 2017. Til að meta árangur úrræðisins voru notaðir ASEBA-listar, sem lagðir voru fyrir á undan og eftir ART-meðferð og síðan aftur þremur árum síðar. Listarnir mæla ýmis vandkvæði eða erfiðleika hjá börnum. Marktækt færri vandkvæði mældust hjá börnunum eftir ART-meðferðina en fyrir hana. Að mati kennara þeirra hafði almennt dregið úr einkennum sem tengdust hegðunarvandkvæðum. Einnig hafði dregið úr félagslegum vandkvæðum og líðan var betri. Því má ætla að ART hafi skilað árangri hjá þessum börnum.
Eftirfylgnirannsókn þessi sýndi þó að sá árangur sem virtist hafa verið náð með meðferðinni væri ekki lengur fyrir hendi hjá þeim öllum þremur árum síðar, en hann hefði þó viðhaldist hjá sumum barnanna. Því er mikilvægt að auka eftirfylgni með meðferðinni, en eftirfylgni virðist vera mikilvægur þáttur í því að unnt sé að viðhalda árangri meðferðar.
Höfundar: Freydís Jóna Freysteinsdóttir og Sigurgrímur Skúlason
Efnisorð: Reiðistjórnun, ART, tilfinningaleg vandkvæði, hegðunarvandkvæði, eftirfylgni,
úrræði






