Allir geta þurft á aðstoð að halda einhvern tíma á ævinni, sumir munu alltaf þurfa stuðning, aðrir tímabundið. Eitt af hlutverkum leikskólans er að koma til móts við börn sem glíma við einhvern vanda, en markviss stuðningur getur haft mikið að segja um framvindu þroska og líðan þeirra. Markmiðið með greininni er að lýsa hlutverki leikskólakennara við mat og greiningu á stuðningsþörfum barna og gildi snemmtækrar íhlutunar. Mati á stöðu barna er hér skipt í tvo hluta: Annars vegar grunnþætti sem þarf að hafa í huga við matið og geta haft mikið að segja um líðan og atferli barnsins og hins vegar mat á uppeldis- og kennslufræðilegum stuðningsþörfum þess. Í framhaldi af því er áhersla lögð á íhlutun og stuðning í gegnum leikinn þar sem leikurinn er öflugasta námsleiðin fyrir öll börn, óháð getu þeirra og þroska. Tilgangur greinarinnar er að varpa ljósi á hagnýtar áherslur í starfi með börnum og sýna fram á mikilvægi ítarlegs mats og markviss stuðnings við börn sem á slíku þurfa að halda. Greinin er byggð á fræðilegri nálgun, þekkingu, reynslu og áhuga höfundar á málefnum barna með stuðningsþarfir.
Höfundur: Jórunn Elídóttir
Efnisorð: leikskólinn, stuðningsþarfir barna, leikurinn, íhlutun