Tilgangurinn með rannsókninni var að skoða upplifun nemenda af leshömlun á skólagöngu sinni, hvernig hún hafði áhrif á nám þeirra, og hvað mætti læra af reynslu þeirra. Rætt var við átta nemendur með leshömlun á aldrinum 16–17 ára í framhaldsskólum á Norðurlandi. Niðurstöðurnar benda til þess að flestir viðmælen-durnir hafi verið sáttir við þann stuðning sem þeir fengu í grunn- og framhaldsskóla en þurft að sækja meira sjálfir eftir aðstoð í framhaldsskóla. Til að fá sem bestan stuðning við námið hafa þeir þurft að reiða sig á skilning og þekkingu samnemenda og kennara á leshömlun sem er ekki sjálfgefið, sérstaklega í framhaldsskóla. Því þarf að auka fræðslu um leshömlun, mögulegar afleiðingar hennar og úrræði fyrir bæði nemendur og kennara. Allir nemendurnir sem tóku þátt lýstu því hvernig þeir höfðu náð árangri í námi þrátt fyrir miklar áskoranir tengdar leshömluninni og var seigla einkennandi fyrir þá.

Höfundar: Þórdís Hauksdóttir, Guðmundur Engilbertsson og Rannveig Oddsdóttir

Efnisorð: læsi, leshömlun, farsæld, nám án aðgreiningar

Lesa grein