Í greininni er fjallað um hugmyndir barnaheimspekinnar, hugtökin heimspeki fyrir börn og heimspeki með börnum eru afmörkuð í samræmi við helstu kennismiði. Í framhaldi er fjallað um það hvort barnaheimspeki geti yfir höfuð talist heimspeki. Farið er yfir helstu mótbárur og svör og komist að þeirri niðurstöðu að barnaheimspeki sé heimspeki. Færð eru rök fyrir því af hverju skynsamlegt getur talist að stunda barnaheimspeki í íslenskum leikskólum og fjallað um þann ávinning sem iðjan getur haft í för með sér og rannsóknir hafðar til hliðsjónar. Iðkun barnaheimspeki í íslenskum leikskólum samræmist vel aðalnámskrá leikskóla. Áhersla er lögð á eflingu gagnrýninnar og skapandi hugsunar í menntun ungra barna þar sem virðing er borin fyrir þroska þeirra, reynslu og upplifun.
Höfundar: Ingi Jóhann Friðjónsson og Guðmundur Heiðar Frímannsson
Efnisorð: heimspeki, barnaheimspeki, skapandi hugsun, gagnrýnin hugsun, aðalnámskrá leikskóla