Grein þessi fjallar um mikilvægi góðrar aðlögunar og er byggð á áratuga reynslu höfundar, athugunum og uppeldisfræðilegum skráningum um aðlögun með þátttöku foreldra í þremur norskum leikskólum frá 2011 til 2022. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi aðlögunar við upphaf leikskólagöngu og koma á framfæri ákveðinni leið aðlögunar sem hægt er að fara til að skapa örugg og traust samskipti milli tveggja heima barnsins, heimilis og leikskóla. Fjallað er um mikilvægi þess að byggja upp traust og öryggi strax frá fyrsta degi í aðlögun, um hlutverk umönnunaraðila og áhrif þeirra á félags- og tilfinningaþroska barnanna. Einnig er fjallað um lykilhugtök í aðlögun og þau tengd fræðilega við reynslu höfundar. Sú leið í aðlögun sem hér er lýst, þ.e. að foreldrar eru þátttakendur, er mikilvægur liður í að leggja grunn að góðum og traustum samskiptum milli heimilis og leikskóla og stuðla að vellíðan og öryggi barns við upphaf leikskólagöngu.
Höfundur: Sigríður Síta Pétursdóttir
Efnisorð: aðlögun, yngstu börnin, umhyggja, öryggi, tengsl