Grein þessi er byggð á reynslu höfundar af kennslu grunnskólabarna á unglingastigi, umræðu fagfólks og lestri stefnumótandi plagga um menntamál. Tvær megináherslur í menntun sem togast á eru skoðaðar, en það er annars vegar menntun sem tilvistarverkefni og hins vegar menntun þar sem áhersla er á góðan árangur í námsgreinum. Þegar menntamál eru annars vegar, hvort sem það er í virku skólastarfi eða í stefnumótandi plöggum, eins og aðalnámskrá grunnskóla, má ávallt finna ákveðna sýn á hvað það er að vera manneskja og hvað menntun er. Rætt er um þessa sýn sem er ekki alltaf augljós. Í þessari grein er lesendum boðið upp á samtal um hugtökin menntun og manneskja og mikilvægi þess ítrekað að skólastjórnendur, kennarar og aðrir sem standa að skólastarfi ígrundi og ræði menntaheimspekilegar spurningar. Það er af hinu góða að stefnumótandi plögg í menntamálum, eins og aðalnámskrá, séu ekki ofurskýrir og óhagganlegir leiðarvísar um skólastarf heldur krefjist ávallt virkrar ígrundunar og túlkunar. Mikilvægt er að „stóru spurningarnar“ sem eru menntaheimspekilegs eðlis verði hvorki út undan í skólastarfi né í menntamálaumræðunni. Þegar hugtökin menntun og manneskja eru skoðuð í aðalnámskrá grunnskóla leiða þau mann að menntun sem tilvistarverkefni og hugtökum tengdum því, eins og ábyrgðarhugtakinu. Þar kemur fram skýr krafa um að nemendur séu ábyrgir einstaklingar og að menntun í skólum stuðli að ábyrgð. Til þess að uppfylla þá kröfu er mikilvægt að virk ígrundun og rökræða menntaheimspekilegra viðfangsefna fái verulegt vægi í skólastarfi.
Höfundur: Jóhann Björnsson
Efnisorð: menntun; aðalnámskrá grunnskóla; manneskja; tilgangur; ígrundandi hugsun; tilvistarverkefni