Í þessari grein er dregin upp mynd af félagslegum tengslum kennara í 20 íslenskum grunnskólum. Nýtt voru gögn sem safnað var í rannsóknarverkefninu Starfshættir í íslenskum grunnskólum frá kennurum og foreldrum í 20 grunnskólum auk gagna frá Menntamálastofnun um niðurstöður á samræmdum prófum. Búinn var til kvarði, sem metur félagsleg tengsl á grundvelli svara 440 kennara við tíu spurningum í umfangsmeiri spurningalista.
Niðurstöður sýna að meirihluti kennara telur félagsleg tengsl í sínum skóla vera mikil. Ekki fannst samband milli félagslegra tengsla og árangurs á samræmdum prófum. Kennarar í heildstæðum grunnskólum, þar sem félagsleg tengsl voru mikil, lögðu frekar miserfið verkefni fyrir nemendur en kennarar í grunnskólum þar sem félagsleg tengsl voru minni, en ekki var algengara að þeir legðu fyrir verkefni eftir áhuga nemenda. Foreldrar barna í grunnskólum þar sem félagsleg tengsl voru mikil voru ánægðari með skólana en foreldrar í skólum þar sem þau voru að meðaltali minni.
Höfundar: Amalía Björnsdóttir og Börkur Hansen
Um höfunda
Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er prófessor við kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, M.Sc.-prófi frá University of Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði mælinga og prófagerðar, lestrar- og málþroskamælinga, skólastjórnunar og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf.
Börkur Hansen (borkur@hi.is) er prófessor við uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hann lauk B.A.-prófi í uppeldis- og sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1982, M.Ed.-prófi í menntastjórnun frá Háskólanum í Alberta árið 1984 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1987. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að skólastjórnun, skólaþróun og stjórnskipulagi skóla.
Efnisorð: félagsleg tengsl; starfshættir; fagauður; námsárangur; grunnskólar