Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á viðhorf foreldra til eigin hlutverks og hlutverks leikskólans í mótun félags- og tilfinningahæfni barna við upphaf grunnskólagöngu. Sú hæfni er ekki aðeins mikilvæg fyrir frammistöðu í námi heldur einnig fyrir virkni barna í lýðræðislegu samfélagi og í samskiptum við jafningja og kennara. Rannsóknin er byggð á eigindlegum viðtölum við foreldra níu barna sem hófu nám í grunnskóla haustið 2023.

Niðurstöðurnar sýna að foreldrar leggja mikla áherslu á þróun félags- og tilfinningahæfni barna sinna, þar á meðal vináttu, tillitssemi, sjálfstjórn og tilfinningagreind, sem grundvöll að farsælu námi og vellíðan í grunnskóla. Foreldrar lýstu því hve mikilvægu hlutverki leikskólinn gegnir í að styðja þessa hæfni og hvernig heimsóknir í grunnskóla auðvelda börnum aðlögun. Rannsóknin varpar ljósi á mikilvægi samstarfs foreldra, leikskóla og grunnskóla við að efla félags- og tilfinningahæfni barna. Framlag hennar felst í því að dýpka skilning á væntingum foreldra og benda á mikilvægi góðrar félags- og tilfinningahæfni barna.

Höfundar: Edda Rósa Gunnarsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir

Efnisorð: félags- og tilfinningahæfni, skólaskil, leikskóli, grunnskóli, foreldrar

Lesa greina