Á undanförnum misserum hefur verið töluverð umræða í háskólum um kosti og galla ChatGPT í námi. ChatGPT er öflugt gervigreindarverkfæri sem er byggt á risamállíkani og líkir eftir mannlegum texta. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á viðhorf kennaranema í Háskólanum á Akureyri til ChatGPT á haustmisseri 2023, tækifæri og áskoranir tengdar notkun verkfærisins í háskólanámi og hvernig þau sáu fyrir sér að nýta það í framtíðinni. Einnig var skoðað hvort viðhorf þeirra og notkun á ChatGPT breyttist yfir misserið. Gagna var aflað með spurningakönnun í tveimur námskeiðum í kennarafræði, bæði í upphafi og við lok misserisins, og gögnin þemagreind. Niðurstöður sýndu að nemendur voru meðvitaðir um tækifæri og áskoranir tengdar ChatGPT og lögðu áherslu á ábyrga notkun. Einnig mátti greina breytingu á viðhorfi nemenda í garð ChatGPT og þróun í notkun verkfærisins milli kannananna. Rannsóknin veitir upplýsingar um viðhorf til ChatGPT og notkun þess meðal kennaranema og undirstrikar mikilvægi samtals og samvinnu innan háskólasamfélagsins um notkun verkfærisins.
Höfundar: Jórunn Elídóttir og Sólveig Zophoníasdóttir
Efnisorð: ChatGPT, gervigreind, háskólanám, kennaranemar